Ýmsar námsleiðir

Ýmsar námsleiðir

Söngskólinn í Reykjavík býður upp á söngnám, við allra hæfi

í Söngskólanum eru nemendur á öllum aldri, allt frá byrjendum, sem geta hafið nám við skólann frá 11 ára aldri, til nemenda sem stefna að útskrift, sem einsöngvarar eða söngkennarar.

Skólinn býður einnig upp á ýmis námskeið; helgarnámskeið fyrir kóra, söngnámskeið utan venjulegs vinnutíma, fyrir söngáhugafólk á öllum aldri, einnig er hægt að fá einkatíma og í boði eru ýmis meistaranámskeið og fyrirlestra fyrir söngnemendur, söngvara og söngkennara.

Garðar Cortes stofnaði Söngskólann í Reykjavík árið 1973.

Garðar nam sjálfur við tónlistarháskóla í Bretlandi og frá upphafi hefur Söngskólinn haft samstarf við The Associated Board of the Royal Schools of Music í Bretlandi.Þaðan koma prófdómarar, tvisvar ár hvert og meta frammistöðu nemenda. Skólinn er staðsettur miðsvæðis í Reykjavíkurborg, í eigin húsnæði að Snorrabraut 54, og þar iðar allt af lífi og hljómar af söng “frá morgni til miðnættis” því skólinn rekur einnig sinn eigin tónleikasal; Snorrabúð.

Námið er deildaskipt, Unglingadeildir, fyrir 11 – 15 ára nemendur, þar sem nemendur fá undirstöðu í réttri raddbeitingu, kynnast alls konar tónlist, m.a. íslenskum sönglögum, en einnig léttri tónlist s.s. söngleikjatónlist, sem er vinsæl hjá þessum aldurshópum, ekki síst þar sem einnig er lagt upp úr leikrænni þjálfun, dansi og hreyfingum með tónlistinni. Námið veitir nemendum ómælda gleði og byggir upp sjálfstraust, ungviðið bókstaflega blómstrar og það kemur ljóslega fram á tvennum tónleikum sem deildin heldur árlega.

Almennt nám skiptist í grunnnám, miðnám og framhaldsnám og síðan er boðið upp á háskólanám, sem skiptist í einsöngvara- og söngkennaranám, en langflestir söngkennarar á Íslandi hafa einmitt hlotið menntun sína í Söngskólanum í Reykjavík.

Fyrir alla sem vilja syngja, er afar mikilvægt að læra frá grunni að beita röddinni rétt.  Misbeiting getur valdið varanlegum raddskemmdum. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að það skiptir ekki máli hvaða tegund tónlistar maður vill helst syngja, dægurlög, söngleikjalög, óperettu eða óperusöng. Þeir sem velja sér sönginn sem atvinnu, þurfa að vera tilbúnir að “söðla um” og taka þátt í ýmis konar söng-verkefnum, ef þeir ætla að gera sönginn að ævistarfi.

Þetta hafa stjórnendur skólans oft fengið staðfest, frá söngvurum, sem numið hafa við Söngskólann í Reykjavík og byggt á þeirri tækni, þeir eru ávallt þakklátir fyrir að hafa grunnþekkingu og tækni til að byggja á, út á hvaða braut sem þeir fara í söngnum.

Margir þekktir söngvarar, hafa numið við Söngskólann í Reykjavík í lengri eða skemmri tíma og eru hér nokkrir nefndir, sem getið hafa sér orð, á mismunandi sviðum tónlistar:

Andrea Gylfadóttir * Andri Björn Róbertsson * Bjarni Thór Kristinsson * Disella Lárusdóttir, Eivör Pálsdóttir * Emiliana Torrini * Garðar Thór Cortes * Gissur Páll Gissurarson, Hanna Dóra Sturludóttir * Hrólfur Sæmundsson * Hulda Björk Garðarsdóttir, Jóhann Friðgeir Valdimarsson * Kolbeinn J. Ketilsson * Kristinn Sigmundsson, Kristín Sveinsdóttir * Kristjana Stefánsdóttir * Oddur Arnþór Jónsson * Ólafur Kjartan Sigurðarson, Svavar Knútur * Valgerður Guðnadóttir * Viðar Gunnarsson * Þóra Einarsdóttir,

Allir umsækjendur um söngnám við skólann, þreyta inntökupróf.

Þar er hlustað eftir því hvort röddin er óskemmd og með góða þroskamöguleika, gott tóneyra þarf að vera til staðar og önnur undirbúningsmenntun hjálpar auðvitað til, þótt hún sé ekki skilyrði fyrir inntöku í Söngskólann í Reykjavík.

Söngnámskeið eru opin öllum og þar fara umsækjendur ekki í inntökupróf.

Hvert námskeið stendur í 7 vikur, og það er algengt að þátttaka í slíku námskeiði, verði kveikja að frekara söngnámi við Söngskólann í Reykjavík.

Nánari upplýsingar er hægt að fá með því að hringja á skrifstofu skólans – 552 7366

eða senda tölvupóst – songskolinn@songskolinn.is – og óska eftir frekari upplýsingum.